Háværð í hljóðupptökum og hljóðútsendingum - Þróun, forsendur og framtíð.

Niðurhala ritgerð [PDF]: http://ow.ly/jER7a


Ágrip:

Í þessari ritgerð verður tekið fyrir fyribærið „háværð“ sem á ensku
kallast loudness. Ég mun reyna að útskýra hvað háværð er og rekja þróun
háværðar í upptökum og hljóðvinnslu auk þess að koma inn á háværð í
útvarps- og sjónvarpsmiðlum.


Fyrirbærið „loudness war“,
sem hefur verið mikið í umfjöllun seinustu ár, verður tekið fyrir og
skoðað. Ekkert eitt íslensk orð verður notað um það sérstaklega en það
ætti ekki að fara milli mála hvenær verið er að tala um það.
Háværðarstríðið er hálfgerð pissukeppni sem staðið hefur yfir í fjölda
ára og má skýra í fljótubragði sem sjálfsprottna keppni eða meting
nánast, milli útgefenda og jafnvel flytjenda í sumum tilfellum, um að
láta tónlist sína hljóma hærra (með meiri háværð) en tónlist meintra
keppinauta. Þetta er bæði sálfræðilegt og tæknilegt „stríð“ sem hefur
þróast og tekið breytingum í takt við tæknibreytingar og hefur þróunin
verið ör hin seinustu ár. Nú binda menn vonir við að háværðarkeppnin
hafi náð hámarki og að menn fari nú að sjá að sér í þeim efnum. Þar
spilar ýmislegt inn í. Til að mynda aukin umræða meðal fagfólks og
áhugamanna um fyrirbærið og þann skaða á tónlistar-upptökum sem verða
þegar menn eru farnir að ýta styrk (háværð) hljóðsins að ystu þolmörkum.


Nýjir
staðlar í útvarps- og sjónvarpsútsendingum, auk mikillar umræðu um
minnkuð hljómgæði tónlistar, sökum þeirra aðferða sem eru notaðar í
hljóðvinnslu til að auka háværð hljóðs, eru að því er virðist að opna
augu og eyru fagmanna jafnt sem almennings um að fara þurfi að leggja
niður vopnin og ná samkomulagi um tæknlegar úrlausnir á því.

Inngangur:

Hvað
er loudness? Í fljótu bragði er erfitt að finna íslenskt orð yfir
fyrirbærið sem allir skilja og er í almennri notkun. Orð eins og
hljóðstyrkur, háværð, ómstyrkur hafa borið á góma en skv. samkvæmt
Orðabanka Íslenskrar Málstöðvar (http://ordabanki.hi.is) er loudness
þýtt sem „háværð“ og „hljóðstyrkur“. Ég mun leitast við að nota íslenska
orðið háværð í þessari ritgerð. Í einhverjum tilfellum verða tækniorð
þýdd en einnig mun ég notast við orðin eins og þau koma fyrir í daglegu
tali hljóðmanna, t.d. nota orðið „kompressor“ frekar en „hljóðþjappa“.

Tilgangur
minn með skrifunum er að reyna að átta mig betur á orsökum og
afleiðingum þessarar þróunar. Reyna að skilja fyrirbærið loudness og
hvernig það hefur verið mælt og skynjað og í hvaða samhengi. Fyrrnefnt
„loudness war“ eða háværðarkeppni, má segja að sé uppsprettan að áhuga
mínum á efninu, sem tengist sterklega áhuga á masteringu. Mastering er
lokastig hljóðvinnslu á tónlist, þar sem öll lög á plötu eru tón- og
hljómjöfnuð innbyrðis og gegn hvert öðru svo hljómur plötunnar verði
heildstæður og sannfærandi og að tónlistin hljómi sem best í flestum
tegundum tækja og við mismunandi aðstæður. Einnig er búið til „master“
eintak sem er svo sent til fjöldaframleiðslu. Mastering er gjarnan
kallað hljómjöfnun á íslensku.

Einnig mun ég fjalla
lítillega um nýlega staðla frá Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva sem
lúta t.d. að mælingu, stjórnun og jöfnun á háværðarstyrk í útsendu efni.
Þessir nýju staðlar marka grundvallarbreytingar á meðferð hljóðs fyrir
og í útsendingum. [1]

Frasinn „loudness war“ hefur
verið notaður til að lýsa þeirri aukningu á háværð hljóðritaðrar
tónlistar á seinustu árum og áratugum. Hljóðblöndungar sem og
hljómjöfnunarmenn (e. mastering engineers) nota kompressora og limitera
(e. compression/limiter) til að minnka styrkleikabreytingar í
tónlistinni.[2] Menn hafa staðið í þeirri meiningu að til þess að ná
athygli hlustenda þyrftu þeirra upptökur að hljóma hærra en keppinauta
þeirra.[3] Háværðarkeppnin er því að einhverju leyti, ef ekki öllu,
sálræns eðlis.

Útvarpsstöðvar, glymskrattar,
geisladiska spilarar með hólfum fyrir marga diska, safndiskar og síðar
rafrænir spilara á borð við iPod, iTunes, WinAmp o.fl., þar sem lög af
ýmsum plötum er hægt að spila handahófskennt, bættu svo olíu á eld
þessarar þróunar. Í bók sinni Mastering Audio heldur Bob Katz
því fram að tónlist í dag hafi álíka mikið svið styrkleikabreytingar (e.
dynamic range) og fyrstu upptökur Edison.[4]

Í fljótu
bragði virðist sem svo að tónlist með meiri háværð hljómi betur. Þessi
„betrumbót“ er þó er skammlíft fyrirbæri, því háværðin fæst ekki án
fórna. Ofnotkun kompressora sem og kompressora sem vinna á aðskildum
tíðnisviðum (e. Multiband compressor) hefur gert þessar ofhljóðþjöppun
(e. Hypercompression) auðveldari. Það er þó almennt talið að ofþjöppun
hljóðs leiði til minni styrkleikabreytinga, skapi tónlistarlega óreiðu
og minnki spennu- og tilfinningaleg áhrif tónlistarinnar. Einnig er
talið að ofþjöppun geti leitt til hlustunarþreytu (e. listening fatique)
sem getur fælt fólk frá frekari hlustun.[5] Vert er að taka það fram að
þegar talað er um þjöppun eða kompressun þá er verið að tala um stjórn á
styrkleikabreytingum hljóðsins en ekki stafræna gagnaþjöppun.


Forsaga háværðarþróunar:

Snemma
á 7. áratug 20. aldar var upptökustjórinn og lagahöfundurinn Phil
Spector einn af frumherjum háværðarþróunar með upptökutækni sína sem var
líkt við hljóðmúr (e. „wall of sound“). Skv. Jeff Barry, sem vann náið
með Spector, byggist grunnformúla Spectors á því að hljóðrita stóran hóp
hljóðfæraleikara. Meðal annars nokkra gítarleikara sem spiluðu sömu
línuna og tveir bassaleikarar sem spiluðu í fimmundum, og hljóðið síðan
sent í bergmálsklefa [6]. Bergmálsklefinn jók háværð og fyllingu
hljómsins með því að auka meðaltal virks gildis fyrir sérhvert toppgildi
hljóðbylgjunnar (t.d. með því að lækka „topp að meðaltals gildið“ (e.
crest factor / peak to average ratio)).

Aðferðir Spectors snerust því að miklu leyti um útsetningar en þó einnig um hljóðvinnslu.

Um
miðjan 7. áratuginn tók Motown hljómplötufyrirtækið upp staðal sem það
kallaði „Loud & Clear“. Staðall þessi byggðist á nokkrum aðferðum
sem áttu að auka háværð laga án þess að það bitnaði á skýrleika.[7]
Lögin voru sjaldan lengri en þrjár mínútur, fyrst og fremst til að fá
útvarpsspilun en einnig kröfðust lengri lög lægri upptökustyrks sökum
annmarka vinylplötunnar. Til að vega upp á móti lélegri hátíðnisvörun AM
útvarpssendinga, sem og til að minnka áhrif bjögunar á öðrum yfirtóni
(e. 2nd harmonic distortion) í miðtíðnum, vegna tæknilegra takmarkanna
vinylplötunnar (t.d. sk. tracing distortion), var styrkur tíðna á bilinu
8-10 kHz aukinn. Lágar bassatíðnir voru fjarlægðar með „brick wall
high-pass filter“ á 70 Hz og skynjunin á hinum horfnu bassatíðnum var
endurheimt með því að auka styrk á öðrum yfirtóni bassans. Að endingu
var platan skorin á hálfum hraða til að minnka (tracing) bjögunina sem
varð til í masteringarferlinu (vinyl mastering / disc cutting). Ýmsum
brögðum var sem sagt beitt. Ekki var samt aukin háværð fengin án fórna
og erfiðra ákvarðana. Aukinn bassi á vinylplötum þýddi að skurðurinn
varð að vera víðari sem leiddi til þess að minni tími af tónlist
rúmaðist á skífunum. [8]

Útvarp:


tilhneigin útvarpsstöðva til að auka háværð útsendinga er vel þekkt og
hefur viðgengist áratugum saman. Til að byrja með hafa útvarpsstöðvar,
erlendis þá kannski sérstaklega, verið að keppa við athygli hlustenda og
„rásaflakkara“ með því að senda út á eins háum styrk og þær komust upp
með. Endabúnaður (compressor, limiter o.fl.) mótar háværð
útsendingarinnar og getur haft talsverð áhrif á hvernig tónlistin endar á
að hljóma í viðtækjum hlustandans. Það má leiða líkur að því að þessi
hlekkur í keðjunni sem útvarpsspilun er, hafi svo leitt tónlistarmenn og
hljóðmenn í enn eina hringavitleysuna í eltingaleik við háværð. Hvaða
hljóðmaður, sem hefur hljóðblandað tónlist fyrir útvarp og plötur,
kannast ekki við að tónlistarmenn vilji að lagið sitt hljómi „eins og í
útvarpinu“ eða sé „tilbúið fyrir útvarpsspilun“? Þótt það sé ekki
einhliða skýring, þá er ekki ólíklegt að það, hvernig tónlist hljómar í
útvarpi, hafi áhrif á ákvarðanir manna þegar þeir eru að hljóðblanda og
mastera í hljóðverinu.


Sjónvarp:

Háværðarhernaðurinn
hefur ekki verið alveg eins áberandi í sjónvarpsútsendingum. Líklega
vegna þess að áhorfendur velja sér rás eftir því hvaða þáttur er sýndur
hvar hverju sinni, frekar en að vera í eilífu flakki á milli stöðva (þó
það gerist vissulega). Það er kannski helst að meiri háværð auglýsinga
milli og í dagskrárliðum (fengin með ofkompressun) séu meira vandamál í
sjónvarpi en háværð dagskrárliða eða það að stöðvarnar séu að reyna að
yfirgnæfa hvor aðra í háværð. Nýlegir staðlar á borð við EBU R128 miða
að því að draga úr (skyndilegum) háværðar breytingum í dagskrá. [9]


Kvikmyndahús:

Það
er fátt sem bendir til þess að háværðarkeppni milli kvikmyndahúsa hafi
nokkurn ávinning fyrir þau. Gestir kvikmyndahúsa borga sig sjálfviljugir
inn á sýningar (fyrirfram) og því þarf ekki að slást um þá á þeim
vettvangi. Hinsvegar þykja forsýningarstiklur (e. preview) og
auglýsingar gjarnan of háværar. Almennt séð (og heyrt) þá hefur Dolby
hlustunarstaðalinn hjálpað kvikmyndahúsum að sýna myndir á þeim
hljóðstyrk og háværð sem til stóð.[10]


Geisladiskar:

Samkvæmt
Bob Katz þá jókst háværð um nánast 20 dB á 20 árum frá því snemma á 9.
áratug 20. aldar [Geisladiskar og geisladiskaspilarar hafa fengist
keyptir á almennum markaði síðan í október 1982] [11]. Um það bil 1dB
háværðar aukning á ári! Á blómaskeiði vínylplötunnar jókst háværð varla
um meira en 4 dB. Þessi eftirsókn eftir háværð hefur bitnað svo verulega
á hljóðgæðum að það fer varla framjá neinum sem leggur við eyru.[12]

Með
tilkomu stafrænnar hljóðvinnslu hættu hljóðmenn smátt og smátt að nota
sk. VU mæla [hljóðstyrksmælar sem sýna niðurstöður sem líkjast því
hvernig mannseyrað skynjar háværð] [13] og fóru að nota s.k. PPM mæla
[PPM mælar eru til í nokkrum útgáfum en þykja ekki gefa góða
háværðarmælingu]. Helsti munir milli VU og PPM mæla er sá að VU sýnir
meðalmótunarstyrk en PPM sýnir toppgildi hljóðstyrksins. Stafræna tæknin
gerði svo samræmingu hljóðs (eða hljóðskrár) á toppgildi hljóðbylgju
(e. peak normalization) auðvelda. Háværð hljóðþjappaðrar tónlistar eykst
því, og um leið minnkar það svigrúm sem styrkleikabreytingar geta átt
sér stað á (e. dynamic range). Geisladiskurinn varð því aðal hvatberi
þeirrar aukningar sem varð á háværð, og toppgildis samræming hljóðbylgja
varð olían á eldinn.[14]

Árið 2001 sagði Bob Speer að;

Megnið
af tónlist sem við hlustum á í dag er lítið annað en bjögun með takti.
Góð tónlist líður fyrir skort á styrkleikabreytingum. Þegar tónlist
skortir styrkleikabreytingar, þá er hún rúin slagkrafti, tilfinningum og
skýrleika
.“[15]

Sjö árum síðar, árið 2008, kom út
platan „Death Magnetic“ með hljómsveitinni Metallica. Með útgáfu hennar
urðu ákveðin straumhvörf í hugum margra hvað háværðarstríðið varðar. Nú
fóru aðdáendur hljómsveitarinnar að kvarta verulega og settu í gang
undirskriftarsöfnun á netinu þar sem þess var krafist að platan yrði
endurhljómjöfnuð með meiri styrkleikabreytingum. Önnur útgáfa af
plötunni, gerð fyrir tölvuleikinn Guitar Hero, hafði lekið út á
internetið og gerði hún styrkleikabreytingum hærra undir höfði en
geisladiska útgáfan.[16] Samanburðurinn varð því barnaleikur fyrir
aðdáendur hljómsveitarinnar. Mælingar sýndu um 10 dB meiri háværð á
geisladiskaútgáfunni, sem var verulega þjöppuð og var m.a. mjög illa
farin af stafrænni bjögun.[17]


Hljóðvinnslubúnaður og tækni:

Hér
verður fjallað um nokkur þau tæki og tól sem getað komið við sögu hins
vinnandi hljóðmanns þegar kemur að því að stjórna styrkleikabreytingum
hljómlistarinnar.


Multiband kompressor og almennir (single band) kompressorar:

Í
hnotskurn þá skiptir multiband kompressor hljóðinu upp í aðskilin
tíðnisvið og með því er hægt að vinna með hvert og eitt þeirra, án þess
að það hafi áhrif á önnur svið. Til dæmis gætum við valið að nota
ákveðna stillingu á lágtíðnirnar upp að 160 Hz, til að stjórna
bassatíðnunum án þess að það hefði áhrif á öðrum tíðnisviðum. Multiband
compressor er að mörgu leyti gagnlegur. Hann auðveldar hljóðmönnum að
hækka meðaltals háværð/styrk mixins án þess að valda aukaverkunum (t.d.
e. pumping, distortion). Hægt er að beita ágengari tónjöfnunar (EQ)
aðferðum ef þess er þörf. Að því sögðu getur multiband kompressor verið
tvíeggja sverð. Velja þarf stillingar af kostgæfni ef ekki á illa að
fara.[18] Almenn notkun kompressora í masteringu getur hjálpað til við
að jafna út styrkleikabreytingar, náð fram smáatriðum og „límt“ saman
mixið. Multiband kompressor gerir okkur s.s. kleift að draga fram t.d.
bassann án þess að það hafi áhrif á sönginn (sem og öfugt). Mikil virkni
á einu tíðnisviði multiband kompressors getur þó gerbreytt heildar
hljómjöfnun mixins ef ekki er varlega farið, til hins verra eða betra.
Með því að auka virkni á efri tíðnum þá verður hljómurinn „mattari“ eða
ekki eins bjartur þegar háværð lagsins eykst, sem væri til að mynda
auðveld leið til að herma eftir mettunaráhrifum segulbanda og/eða til að
minnka áhrif bjögunnar sem getur fengið á sig grófan (harðan) blæ með
aukinni háværð.[19]

Eitt af markmiðum masteringar er að
jafna styrk og hljóm laganna á plötunni gegnt hvert öðru. Annað markmið
væri að lögin (mixin) á plötunni hljómuðu eins vel og mögulegt væri við
sem flestar aðstæður og hægt væri. Þetta er í sjálfu sér kannski
ógerlegt en það má vissulega jafna leikinn ef svo má segja. Notkun
kompressora getur því vissulega hjálpað mikið við það. Jafnari styrkur
(minni styrkleika breytingar) og jafnvel meiri háværð, getað virkað
ágætlega í umhverfi sem hefur mikið af truflandi umhverfishljóðum. Það
má svo velta því fyrir sér hvort ekki væri þá hreinlega eðli- og
skynsamlegra að hafa kompressora í endabúnaði neytandans.

Hins
vegar vaknar upp sú spurning hvort neytandinn nenni yfir höfuð nokkuð
að hugsa um þetta og hafi þá annað hvort alltaf kveikt eða slökkt á
kompressornum og hvort hann geri sér almennt grein fyrir því hvort
tónlistin sem hann er að hlusta á sé mikið kompressuð (fyrir), eður ei.
Einnig vaknar upp sú fagurfræðilega spurningar hvort neytandinn eigi að
getað haft áhrif á og breytt háværð og styrkleikabreytingum í afurð
listamannsins sem mögulega er búið að leggja í mikinn tíma og pening til
að láta hljóma sem best. Einnig þarf að meta hvort aukin kompression í
endabúnaði auki eða stuðli að hlustunarþreytu (umfram það sem kannski er
þegar orðið).

Listrænar afleiðslur af notkun
kompressora geta verið umtalsverðar. Til að mynda getur hæfileg notkun
skapað kraft, spennu og „persónuleika“, aukið slagkraft og almennt stuð
ef svo má að orði komast. Ofnotkun, sem ylli þá ofþjöppun
(hypercompresson), getur hins vegar leitt til minni styrkleikabreytinga,
skapað tónlistarlega óreiðu og minnkað spennu- og tilfinningaleg áhrif
tónlistarinnar. Einnig magnast einóma svið mixins og víðóma áhrifin
minnka sem og slagkraftur (punch) skammvinnra hljóðtoppa. Það skortir þó
rannsóknir til að sýna fram á hvort fólk heyri í raun og veru munin
milli ofnotkunnar á kompressor eður ei. [20]

Eitt aðal
umkvörtunarefni fólks varðandi hypercompression er að hún fletur út
andstæður sem byggjast á dramatík og styrkleikabreytingum og dregur þar
með úr tilfinningalegum áhrifum (hrifnæmis þætti) tónlistarinnar.

Daniel J. Levitin sagði:

„Háværð
er ein af sjö helstu frumþáttum tónlistar ásamt tónhæð, hryn, laglínu,
hljómsetningu, (flutnings)hraða og takttegund. Hinar smæstu breytingar í
háværð geta haft djúpstæð áhrif á tilfinningalega miðlun og skynjun
tónlistar. Píanóleikari gæti spilað 5 nótur samtímis og haft eina þeirra
aðeins háværari og valdið því að hún fengi algerlega nýtt hlutverk í
heildarskynjun okkar á tónlistinni. Háværð er einnig mikilvægur þáttur í
skynjun á hryn, líkt og dæmið hér að ofan vísar til, sem og
taktegundar, því háværð nótnanna stjórnar því hvernig þær raðast saman í
hryn/taktegund.“
[21]

Það ætti því að
liggja nokkuð ljóst fyrir hversu mikilvægt það er fyrir upplifun okkar á
tónlist að hún sé blæbrigðarík af styrkleikabreytingum og háværð, svo
fátt eitt sé nefnt.

Ef styrkleikabreytingar eru nánast
fjarlægðar með hypercompression og lagið jafnvel komið með mikla
meðal-háværð sem er nánast söm út lagið, þá er ansi líklegt að blæbrigði
milli kafla verði lítil sem engin. Erindið orðið jafn hávært og
viðlagið jafnvel. Þar með eru horfin þau tilfinningalegu áhrif sem
styrkleikabreytingar og háværðarmunur gerir fyrir upplifun okkar. Lagið
nær ekki „hæðstu hæðum“, það verður ekkert sérstakt hámark. Upplifunin
verður ekki söm.

“When there is no quiet, there can be no loud.” - Matt Mayfield [22]

Háværðarþróunina
má glöggt greina á þekktum upptökum sem hafa verið endurhljómjafnaðar
(remastered). Það eru s.s. ekki einungis nýjar eða nýlegar upptökur sem
eru þjakaðar af háværð. Led Zeppelin safnið Mothership er t.d.
háværara en upphaflegu útgáfurnar.[23] Aðrar endurútgáfur sem hafa
einnig verið gagnrýndar fyrir háværð og ofþjöppun eru t.d.: Rolling
Stones plöturnar Sticky Fingers og Some Girls. Greatest Hits plata með
Red Hot Chili Peppers frá árinu 2003 og Beatles 1 safndiskurinn.
Plötufyrirtækin auglýsa gjarnan endurútgáfurnar sem endurhljómjafnaðar
útgáfur af frumútgáfu (master tapes) og gefa í skyn að með því séu þær
„nær sannleikanum“ á einhvern hátt.[24] Það getur þó orðið þrautin
þyngri fyrir neytandann að meta hvort sú sé raunin. Gott dæmi um þessar
æfingar plötufyrirtækjanna eru endurútgáfur á upptökum með
hljómsveitinni ABBA. Hinn ískaldi sannleikurinn er hinsvegar sá að með
hverri endurútgáfunni á fætur annari þá eykst háværð og
styrkleikabreytingar minnka og fjarlægjast endurútgáfurnar þannig hljóm
upphaflegu útgáfunnar.[25]


Hlustunarþreyta:

Þrátt
fyrir að hinn almenni hlustandi gerir sér kannski ekki meðvitaða grein
fyrir neikvæðum áhrifum hypercompression í fljótu bragði, í
hversdagslegri hlustun sinni, þá getur hann orðið líkamlega og andlega
þreyttur með tímanum og tapað áhuganum á áframhaldandi hlustun. Án þess
að hann sjálfur hafi sérstaka skýringu á reiðum höndum. Það getur verið
ansi erfitt og flókið mál að meta hvort hlustunarþreyta sé til staðar og
af hverju hún stafar. Fyrir tíma aukinnar háværðar í hljóðritunum, t.d.
á blómaskeiði vinylplötunnar, þá var hin almenna neysla á tónlist
kannski ekki eins mikil. Aðgangurinn að tónlist var einnig að einhverju
leyti takmarkaðri. Menn gátu eignast vinylplötur ef þeir áttu þess kost,
hlustað á eina hlið í einu (u.þ.b. 20 mín í senn). Vinylplötunar buðu
einnig ekki upp á „endalausa“ háværð þannig að styrkleikabreytingar voru
í hávegum hafðar. Ef við berum þessa neyslu saman við það sem er að
gerast nú á tímum (síðla árs 2012) þar sem internetið veitir nú
ótakmarkaðan aðgang að allri tónlista allra tíma (mis löglega þó, en það
er önnur saga) og stafrænir spilarar á borð við iTunes og iPod gera
fólki auðvelt að halda utan um gríðarlega stórt tónlistarsafn og, ef því
er að skipta, spilað það allan sólarhringinn allt árið um kring.
Neyslan hefur því augljóslega breyst auk þess sem háværðin hefur aukist.

Þrátt
fyrir mikla umræðu um hlustunarþreytu þá kemur á óvart hversu lítið
erum um rannsóknir og tilraunir sem sanna tengsl milli hypercompression
(og háværðar sem afleiðingar hennar) og hlustunarþreytu[26].

Veldur tónlist með mikilli háværð (hypercompressed) hlustunarþreytu?

Eins
og ýjað var að hér að ofan þá geta margar ástæður legið að baki
mögulegri hlustunarþreytu og eitt þarf ekki endilega að útiloka annað.
Þrátt fyrir að útgefnar rannsóknir og niðurstöður skorti, þá er því
almennt trúað að óhófleg notkun kompressora stuðli að hlustunarþreytu
sem svo dragi úr áhuga á áframhaldandi hlustun.

Nick Southall lýsir þessu þannig:

„Tónlist
snýst um spennu og spennulosun. Hávær tónlist án styrkleikabreytinga
veldur stöðugum árásum á hljóðhimnu eyrans... og er skynjun manns
misþyrmt, sem svo veldur þreytu og jafnvel ógeði á tónlistinni sem maður
dáir. Ég efast stórlega um að ég sé einn um þessa upplifun“
.[27]

Það
eru kannski helst hljómjöfnunartæknar sem eru öllum hnútum kunnugir
þegar kemur að þessu atriði. Þeir eiga jú, margir hverjir, að baki
ógrynni vinnustunda þar sem þeir hlusta af athygli og með einbeitningu á
mismunandi magn kompressunar. Skoðanir geta þó verið skiptar innan
þessa hóps. Sumum finnst háværðardýrkunin spurning um að fara bil beggja
og sigla milli skers og báru hvað varðar gæði og kröfur markaðarins
meðan aðrir hafa miklar áhyggjur af hlustunarþreytu og versnandi
hljóðgæðum.[28]

Mikið kompressuð tónlist sem er
rúin styrkleikabreytingum verður hreinlega erfið áheyrnar, eðlimálsins
samkvæmt, til lengri tíma litið
“.

Eða svo segir hljómjöfnuðartæknirinn Bob Weston og heldur áfram:

Þessi
hlustunarþreyta er ekki eins augljós líkt og hin almenna harðsperra eða
áþekk líkamleg þreytueinkenni, þannig að hinn almenni hlustandi á
erfitt með að gera sér grein fyrir því að hann sé haldin
hlustunarþreytu. En ef þú hefur einhvern tímann velt því fyrir þér hvers
vegna þú hefur ekki úthald í að hlusta á nýjustu tónlistina til jafns
við þá eldri, eða hví þú getur ekki hlustað í langan tíma í senn, þá er
þessi líkamlega og andlega hlustunarþreyta stór hluti af útskýringunni
“. [29]

En...
það vantar vísindalegar sannanir á fyrirbærinu. Þrátt fyrir að þessar
lýsingar, útskýringar og skoðanir reynslubolta í faginu, þá gæti verið
að þessar skýringar þeirra hafi fengið byr undir báða vængi því þær
hljóma sem líkleg skýring og þannig hafi þær hlotið brautargengi í
umræðunni. Án efa er sú (meinta) undirliggjandi barátta, milli hinna
„illu“ hljómplötuútgefenda, sem vilja bregða fæti fyrir andstæðinga sína
með afurð sem slær vöru þeirra við í háværð, og svo „góðu“ hljóðvinnslu
gæjanna sem eru að berjast fyrir óaðfinnanlegum hljóðgæðum, skýring á
þeim (oft á tíðum) tilfinningalegu viðbrögðum sem fólk sýnir í umræðunni
um háværð. Hvað sem því líður þá er ekki hægt að leiða allar þessar
vísbendingar hjá sér.


Tegundir hlustunarþreytu:

Líkamleg þreyta
getur á hinn bóginn verið tvenns konar: Þreyta í líffærum innra eyrans
annars vegar og tauga- eða lífefnafræðileg þreyta í innra eyra (kuðungi)
hins vegar. Höfum í huga að háværð (sem er jú fyrirbæri sem við
skynjum) og styrkleiki (eðlisfræðileg mæling á orku) eru ekki
fullkomlega samhæfð fyrirbæri. Mikil háværð getur hins vegar valdið
afhleðslu á ytri hárfrumum sem gæti bent til lífefnafræðilegrar þreytu.
Þar að auki er viðbragðstími innri hárfrumna að mestu í samhengi við
háværð (en ekki styrkleika), sem einnig bendir til lífefnafræðilegrar
þreytu.

Huglæg/andleg þreyta sem
tengist miðtaugakerfi líkamans, getur sprottið af skorti á hljóðrænum
vísbendingum hins vegar og misvísandi (eða hreinlega röngum)
vísbendingum annars vegar. Ef vísbendingarnar (hljóðið) sem heilinn fær
til úrvinnslu eru rangar eða ekki til staðar, þá þarf heilinn að erfiða
meira til að vinna úr upplýsingunum sem hann fær. Talað mál er
sérstaklega viðkvæmt fyrir þessu. Multiband kompressor (t.a.m.) fletur
út hljóðið og eyðileggur fínleg smáatriði og áherslur talmálsin (skv.
James D. Johnston).[30]

Það virðast því getað verið
ýmsar ástæður fyrir hlustunarþreytu. En frekari rannsókna virðist vera
þörf. Einnig virðist vera flókið að mæla og meta hlustunarþreytu þar sem
svo mörg huglæg og afstæð atrið koma til. Fólk getur t.a.m.verið
misjafnlega vel upplagt. Hlustunarstyrkur (volume) getur verið
mismunandi. Háværð (loudness) efnisins gæti einnig verið mismunandi.
Tónlist með og án texta gæti skipt máli. Það hvernig fólk upplifir
tónlistina (góð, skemmtileg, leiðinleg, léleg o.s.frv.) gæti svo
sannarlega einnig spilað inn í sem og hlustunaraðstæður (hvar, hvernig).
Það má líka velta því fyrir sér hvort tónlist án mikilla
styrkleikabreytinga, vegna mikillar kompressunar, valdi því að
hlustandinn velji að setja tónlistina í bakgrunn hversdagsins. Tónlistin
er mögulega orðin það flatneskjuleg að það er ekkert sérstakt sem
kallar á athyglina, hún er öll jafn hávær. Hlustandinn lækkar og
athyglin og áhuginn minnkar í sama hlutfalli. Tónlistin er orðin að
uppfyllingarefni. Tónlist með (miklum eða meiri) styrkleikabreytingum
krefst hins vegar meiri athygli af hlustandanum og meira næðis að
líkindum. Það krefst athygli að einbeita sér að smáatriðum
tónlistarflutningsins ef háværð er lítil og lítill styrkur er á
hljóðinu. Að sama skapi verða þá áhrifin og upplifunin meiri þegar
styrkur eykst og kraftur og háværð tónlistarinnar nær hæðstu hæðum.
Þannig tónlist er vissulega síður líkleg til þess að hverfa í óm
hversdagsins en sú sem er rúin styrkleikabreytingum.

Önnur
aukaverkun háværðarþróunar seinustu ára er skortur á samræmingu
háværðar (og hljóðstyrks) milli eldra og nýrra tónlistarefnis.
Styrksmunur á geisladiskum getur numið allt að 20 dB og hefur útgáfuárið
mikið um það að segja hver talan er. Slíkur munur fer ekki framhjá
neinum sem spilar blandað efni af handahófi (e. shuffle mode) (t.a.m.) í
iTunes spilaranum (sérstaklega ef ekki er hakað við "Sound Check" möguleikann í iTunes). Þetta getur valdið ama og í versta falli heyrnarskemmdum sem og skemmdum á hátölurum.


þessum skaðsemis möguleika frátöldum þá má einnig velta því fyrir sér
hvort hypercompression ein og sér getið aukið líkur á heyrnarskaða.
Skaðinn sem hlýst af of miklum hávaða tengist samanlagðri orku sem er
skynjuð, og er þar af leiðandi beintengdur meðaltalsgildum hljóðstyrks
og hversu lengi menn verða fyrir háværa hljóðinu. Þar með er
óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér, hvort ítrekuð hlustun á
of-kompressaða hljóð með sínum háa meðalstyrk og háværð, geti ekki leitt
til heyrnarskerðingar með tímanum.

Að því sögðu þá
getur kompressun og limitering einnig verndað hlustir fyrir hættulega
háværum sem og skyndilegum toppum í styrkleikabreytingum. Þegar upp er
staðið, þá hlýtur spurningin, hvort of-kompressað efni með mikla háværð
sé skaðlegt heyrn og/eða valdi hlustunarþreytu, að vera háð því hvernig
neytandinn stillir afspilunar hljóðstyrkinn. Miðar hann við meðaltals
háværð eða hámarks háværð?

Ef neytendur stilla eftir
meðaltals háværð þá eru þeir í raun að koma jafnvægi á hljóðið sem þeir
eru útsettir fyrir. Annar möguleiki er sá að hypercompressuð tónlist
geti valdið heyrnarskaða með tímanum sökum „skorts á hvíldartíma“. Eyrun
þurfa ekki síður hvíld en aðrir líkamshlutar. Hárfrumurnar þurfa t.d.
tíma til að jafna sig eftir háværa hljóð-toppa. [31]

Nýleg
bandarísk rannsókn (frá árinu 2010) leiðir í ljós að útbreiðsla
heyrnartaps meðal bandarískra unglinga hefur aukist umtalsvert. Það fór
úr 14.9% á árunum 1988-1994 í 19.5% á árunum 2005-2006.[32] Á
unglingsárum er skaðinn ekki endilega orðinn mikill en er þó vissulega
vísbending um ákveðið ástand og að frekari skemmdir geti átt sér stað ef
ekkert er að gert. Aukin notkun heyrnatóla, sérstaklega þeim sem er
troðið inn í eyrun gæti einnig spilað hér inn í. Ferðaspilarar, líkt og
iPod nú til dags og Sony Walkman vasadiskóin á árum áður, gera það að
verkum að fólk er gjarnan að hlusta á tónlist við aðstæður þar sem
utanaðkomandi hljóð eru hávær og truflandi. Þær aðstæður einar og sér
getað valdið því að fólk freistist til að hækka hljóðstyrkinn á
tónlistinn svo það fái notið hennar óáreitt, sem svo eykur líkurnar á
heyrnarskemmdum ef háværðin er til lengri tíma. Hvort eitthvað sé við
þessu að gera er kannski erfitt að segja til um, en fólk ætti vissulega
að hugsa sig tvisvar um áður en það hlustar á tónlist á háum styrk
tímunum saman án hlés, sérstaklega með heyrnartólum.


Hefur háværð áhrif á sölutölur?

Það
gæti orðið þrautin þyngri að tengja þetta tvennt saman með beinum
hætti. Persónulega finnst mér það eilítið fjarstæðukennt að háværð ein
og sér sé eitthvað úrslitaatkvæði eða trompspil sem sker úr um það hvort
geisladiskur eða lag selst vel á markaði. Í umræðu seinustu ára hefur
mikið verið rætt um þær breytingar sem hafa orðið á neysluvenjum
tónlistarunnenda. Internetið gerir það að verkum að fólk hefur (eins og
áður hefur komið fram) greiðan aðgang að nánast allri tónlist sem hefur
verið gefin út fyrr og síðar. Ekki er lengur nauðsynlegt að fara út í
plötubúð og gramsa og hlusta til þess að uppgötva nýtt efni. Mp3 blogg,
Spotify, Last.fm, iTunes, Pandora og áþekkar síður og tónlistarveitur
eru óþrjótandi uppspretta, svo ég tali nú ekki um myndskeiðaveituna
Youtube. Breytt neysla og neysluform getur haft mikil áhrif á sölutölur
gamla viðskiptamódelsins. Hvort markaðurinn skaðist varanlega, aðlagist
og/eða breytist til frambúðar verður að koma í ljós.

Chris
Johnson sýnir fram á það í rannsókn sinni á háværð og
styrkleikbreytingasviði á nokkrum söluhæstu (og áhrifamestu) plötum
allra tíma [33], að þær hafi flestar vítt svið styrkleikabreytinga
(dynamic range). Einnig segir hann framgöngu hljómjöfnunartækna í
slagtogi við útgáfustjóra plötufyrirtækja þess valdandi að sala á plötum
stórskaðist til lengri tíma litið. Þeir (útgáfustjórarnir) hafa jú
staðið í þeirri meiningu að meiri háværð þýði aukin sala. En samkvæmt
rannsókn Chris þá veldur ofaukin háværð því að umræddar plötur eiga sér
ekki sérstaka framtíð í langtíma sölu.[34] Í ritgerð eftir Dave Viney,
þar sem hann rannsakaði 30 nýlegar smáskífur sem voru valdar af
handahófi af breska vinsældarlistanum yfir nokkura mánaða tímabil, kemur
fram að það eru engar sérstakar vísbendingar þess efnis að samband sé
milli háværðar og árangurs á vinsældarlistum! [35] Svipaða sögu, sem
gerðist hinum megin Atlantshafsála, má segja þegar nokkrir mikilsmetnir
og áberandi einstaklingar úr upptökuiðnaðinum komu saman og dæmdu um
bestu hljóðupptöku/hljóðvinnslu á geisladisk (e. best engineered CD)
fyrir Grammy verðlaunaafhendinguna. Eftir að þeir höfðu hlustað sig í
gegnum 200 geisladiska, þá gátu þeir ekki tilnefnt einn einasta sem næði
því viðmiði sem Grammy setti sem skilyrði fyrir verðlaunum. Allt sem
þeir hlustuðu á var gersamlega rúið öllum styrkleikabreytingum og illa
farið af ofnotkun kompressunar. Það sem þeir enduðu á að gera var að
velja þann geisladisk sem hljómaði sem „minnst unninn“. Í raun vann
sigurvegarinn ekki á forsendum „bestu hljóðvinnslunnar“ heldur vegna
þess að hann hafði átt sem minnst við upptökurnar. Þegar nánar er að
gáð, þá var það frábær hljóðvinnsla.[36] Svo því sé haldið til haga, þá
var sigurvegarinn í þessum flokki (Grammy Award for Best Engineered
Album, Non-Classical) þetta árið (2003) geisladiskur með Norah Jones,
"Come Away With Me".[37]


Víkjum okkur aftur á
útvarpsslóðir, því allir vilja Lilju kveðið hafa þegar kemur að því að
fá útvarpsspilun, ekki satt? Og spilun í útvarpi þykir jú nauðsynlegur
áfangi til að getað selt tónlist í einhverju magni. Þannig er nefnilega
mál með vexti að of kompressuð tónlist með mikla háværð hljómar ekki
hærra í útsendingum útvarps!

Skv. Orban & Foti þá
hljómar hún meira bjöguð. Svo bjöguð að í verstu tilfellum telur fólk
viðtæki sín vera biluð. Hljómurinn fellur saman, verður lítill, frekur
og flatur. Slík meðferð á tónlistinni er ekki til þess fallin að vekja
ánægju meðal hlustenda þegar hækkað er í viðtækjun og er því dæmd til að
enda sem bakgrunns tónlist á lágum styrk. Uppfyllingarefni. Þegar
hypercompressuð tónlist lendir í útsendingarbúnaði stærstu útvarpstöðva
markaðarins, þá mergsýgur búnaðurinn allt líf og öll tilþrif úr
tónlistinni.[38]

Slíkt er nú ekki vænlegt til vinsælda eða til þess að auka sölu.

Þurfum
við frekari vitnana við? Er ekki deginum ljósara að tónlist með
eðlilegar styrkleikabreytingar og hóflega háværð á almennt meira upp á
pallborðið þegar upp er staðið?

Gott ef ekki vænlegri til árangurs og ánægju þar að auki?


Hvað er til ráða? Hvernig endurheimtum við hljómgæði og eðlilega háværð í hljóðritunum?

Opin
almenn umræða meðal lærðra sem leikna um háværð og ofkompressun hljóðs
og hver áhrifin eru á hljóðritanir og svo (mögulega) heilsu eru
sennilegast það atriðið sem vægi hvað þyngst í að vinda ofan af
háværðarstríðinu. Ef fólk, neytendur sem og framleiðendur/seljendur,
átta sig á því að ávinningur aukinnar háværðar er að líkindum enginn, en
fórnaðkostnaðurinn eru verri hljómgæði og flatari upplifun á
tónlistinni, þá hlýtur að greiðast úr vandanum smátt og smátt. Ein lausn
er að jafna leikinn með því að gera ávinning háværðar ómarktækan og
minnka þannig hvatann til þess að ofkompressa og leitast eftir mikilli
háværð. Einnig væri hægt að „refsa“ ofkompressuðum og háværum upptökum
og gera þeim, sem láta styrkleikabreytingarnar njóta sín, hærra undir
höfði. Þess háttar herkænsku er hægt að framfylgja með notkun háværðar-
og styrkleikabreytinga mæla.

Háværðar-mælingastaðlar á
borð við ITU-R BS. 1770 og EBU R 128 væri hægt að nota til þess að koma
böndum á háværðina með sjálfvirkri háværðarjöfnunar (loudness
normalization). Háværðarjöfnun ræðst að rótum þess að
styrkleikabreytingar tapast og háværð eykst: Tilraunir þess efnis að ná
ónáttúrulega háum styrk með toppgildis jafnaðri háværð (e. peak
normalized loudness levels).

Eins og áður hefur komið
fram þá er ýmislegt sem bendir til þess að háværð skipti litlu sem engu
máli fyrir hinn almenna hlustanda og (þar með) fyrir árangur á
vinsældalistum og/eða á viðskiptasviðinu. Sem er andstætt við það sem
fólk virðist almennt trúa í tónlistariðnaðinum.

Með því að
háværðarjafna tónlist að ákveðnu gildi í afspilun og/eða útsendingum, þá
ætti það að draga úr þörfinni fyrir að auka eða keppast við að ná sem
mestri háværð. Vopnin væru því slegin úr höndum fótgönguliða
háværðar-hersingarinnar.

Til þess að háværðarjöfnun nái
tilætluðum árangri þá þarf notkun hennar að verða útbreidd og komast í
almenna notkun. Ef háværðarjöfnun er valkvæður möguleiki (sérstaklega ef
það er sjálfgefið að slökkt sé á henni), t.a.m. á afspilunartækjum, nú
eða ekki til staðar, þá gæti enn verið til staðar þrýstingur á að auka
háværð í hljóðvinnslu og í hljómjöfnun. Einnig tæki tíma fyrir eldri
tækjabúnað, sem styður ekki háværðarjöfnun, að hverfa úr notkun. Engu að
síður yrði almenn notkun háværðarjöfnunnar til þess fallin að draga úr
háværðar “hernaði“. Það þyrfti því gera nýjan afspilunarbúnað þannig úr
garði að hann yrði útbúinn háværðarjöfnun og að sjálvirkt væri kveikt á
henni. Háværðarjöfnun ætti að vera staðalbúnaður en ekki valmöguleiki.

Í
stafrænum hljóðskrám væri hægt að vista greinda (mælda) háværð eða
afspilunar styrk [39] (e. playback gain eða replay gain) t.d. með
stafrænum merkingum á borð við ID3v240 eða í gagnagrunni á netinu.
Margar athyglisverðar tillögur er nefndar í tillögum sérfræðinganna sem
skipa „Music Loudness Alliance“ (sjá neðanmálsgrein [41]). Ein tillagan
er sú að það sé ekki nóg að háværðarjafna lög, ein og sér, heldur væri
skynsamlegt að háværðarjafna plötur (innbyrðis) (e. Album Normalization)
til að halda þeirri listrænu sýn sem tónlistarflytjandinn og
hljómjöfnunartæknirinn höfðu á háværðar-samhengi plötunnar. Þannig
héldist hið listræna samhengi milli háværra og lágværra laga á plötunni.
[42]

Almenn vitundarvakning um háværðar-vandamálið
meðal þeirra sem njóta tónlistar getur stuðlað að auknum þrýstingi á
útgefendur ef neytendurnir eru virkir í því að láta vita af andúð sinni á
hypercompressaðri tónlist. Til að mynda með því að skrifa plötudóma á
netið þar sem væri hægt að kvarta hressilega yfir ástandinu. Nú eða efna
til mótmæla og söfnun undirskrifta líkt og Metallica aðdáendurnir gerðu
í kjölfar Death Magnetic plötunnar, eins og fyrr var getið.
Viðskiptavinurinn hefur jú alltaf rétt fyrir sér. Til að auka jákvæða
umfjöllun um það sem vel hefur farið í hljóðheimum þá mætti verðlauna þá
sem hafa staðið vel að verki. Sem dæmi um slíkt má nefna „The Dynamic
Range Day Award“ sem hljómjöfnunartæknirinn Ian Shepherd hefur staðið
fyrir undanfarin ár. Til gamans má geta þess að sigurvegari seinasta árs
var plata Bjarkar Guðmundsdóttur „Biophilia“. [43]

Líkt
og Dolby staðlarnir hafa lagt sitt af mörkunun til að ná einingu um
háværðarstaðla í kvikmyndaiðnaðnum, þá hefur EBU R 128 staðallinn það
sama að markmiðið fyrir útvarps- og sjónvarpsútsendingar.[44] Hægt væri
að ímynda sér að samtök innan tónlistariðnaðarins gætu á sama hátt
skilgreint háværðarmarkmið og staðla fyrir hljóðvinnslu og
tónlistarútgáfu. Ekki er útilokað að fyrrnefndir háværðarstaðlar fyrir
útsendingar eigi eftir að hafa áhrif á tónlistar- og hljóðvinnslu
iðnaðinn.


Tillögur að bætri háværð í hljóðupptökum og útgefnu efni:

- Skilgreina þarf háværðar-viðmið fyrir útgefið efni (t.d. á geisladiskum og stafrænt efni til niðurhals).

- Skilgreina staðal fyrir upptökur sem hafa gott svið styrkleikabreytinga og merkja þær ákveðnum „gæðastimpli“.

-
Innbyggja háværðarjöfnun í stafrænan afspilunarbúnað á borð við
geislaspilara, DVD spilara, stafræna ferðaspilara (iPod o.þ.h.),
hugbúnaðarspilara (iTunes o.fl.) og tónlistarveitur á netinu (Gogoyoko,
Last.fm, Spotify o.fl.).

- Bjóða upp á valmöguleikann á
að kompressa hljóð við afspilun, sérstaklega í tækjabúnaði fyrir bíla
eða búnað sem mætti finna í sambærilegum aðstæðum þar sem utanaðkomandi
hljóð veldur truflunum. Þessi lausn dregur úr þörfinni á að kompressa
hljóðið í (t.d.) hljómjöfnun (masteringu).

- Söluaðilar
stafræns efnis á netinu ættu að bjóða neytendum upp á upplýsingar um
háværð afurðanna sem þeir selja. Þannig geta kaupendur vegið og metið
hvort þeim hugnist efnið og það henti þeirra smekk og aðstæðum.

-
Tónlistarmenn, hljóðblöndungar og hljómjöfnunartæknar ættu alvarlega að
íhuga að leyfa styrkleikabreytingum að njóta sín meira í upptökunum og
láta það eftir sér að hljómjafna (mastera) plötuna eins og þeir vilja
heyra hana. Ekki eltast við vindmyllur markaðsaflanna. Það er afskaplega
ólíklegt að það hafi nokkur áhrif á sölutölur, og ef allir leggjast á
eitt um þetta atriði þá er smátt og smátt hægt að vinda ofan af þeirri
gríðarlegu háværðaraukningu sem hefur orðið seinustu 15 ár eða svo. Vert
er að benda á að samtökin Turn Me Up! Þau berjast fyrir vegsemd
styrkleikabreytinga og hóflegri háværð í hljóðupptökum. Þau hafa útbúið
ákveðna gæðavottun í formi merkis sem fræðir neytandann um að það sé í
fullkomnu lagi með hljómplötuna sem þeir hafi keypt (sé hún merkt þessu
merki). Það þurfi bara að hækka aðeins í græjunum til að þess hún njóti
sín sem best. Markmiðið með þessu er að skapa grundvöll fyrir listafólk
til þess að gefa út tónlist sem er rík af styrkleikabreytingum án þess
að eiga það á hættu að það verði misskilið af neytandanum.[45]

- Hljómplötuframleiðendur ættu að „semja um vopnahlé“ og sammælast um að fylgja ákveðnum háværðar stöðlum.

-
Tónlistarútgefendur gætu íhugað að bjóða upp á hágæða útgáfur
tónlistarefnis sem hefðu minni háværð og meiri styrkleikabreytingar.
[Þetta er nú þegar að gerast að vissu leyti á www.hdtracks.com þar sem
nýlega endur-hljómjafnað efni fæst keypt.[46]]


Niðurstöður:

Þótt
það liggi nokkuð ljóst fyrir að háværðarþróun seinustu áratuga sé
staðreynd þá er enn ýmislegt á huldu með orsakasamhengið og hvort
afleiðingarnar séu til góðs eða slæms. Þeir sem láta sig málið almennt
varða eru þó með skýra afstöðu þess efnis að nú sé of langt gengið með
háværð og því mál að linni. Þessari óheillaþróun verði að snúa við til
að enduheimta hljómgæði og eðlilega „andandi“ tónlist, með öllum sínum
styrkleikabreytingum og fjölbreytileika henni fylgjandi.

Það
er þó ljóst að það skortir rannsóknir á því hvort ofkompressuð tónlist
og mikil háværð auki líkur á hlustunarþreytu. Einnig væri athugandi að
rannsaka hvort mikið kompressuð tónlist, með öllum þeim fylgikvillum sem
því fylgja svo sem eins og mikilli háværð og bjögun, komi verr út úr
yfirfærslu á gagnaþjöppuð skráarsnið á borð við mp3 og að auki hvort
útsendingarbúnaður útvarpsstöðva hafi einnig aukin neikvæð áhrif á
hljómgæði of kompressaðs efnis. Reyndar væri forvitnilegt að vita hver
áhrif útsendingarbúnaðs eru á hljómgæði almennt, burt séð frá kompressu
eða háværð.

En ég er þess engu að síður full viss um að
það séu bjartari tímar framundan í þessum efnum. Það virðist sem
ákveðnum sársaukamörkum hafi verið náð og menn, bæði lærðir og leiknir,
vilja snúa við þessari þróun. Nýlegir staðlar í útvarps- og
sjónvarpsheiminum eru einnig jákvætt merki sem ég er viss um að eigi
eftir að smita útfrá sér og hafa áhrif á hljóðvinnslu tónlistar. Ef
háværðarjöfnunarbúnaður verður staðalbúnaður í afspilunartækjum þá
aukast líkurnar á árangri enn frekar.

Það er því mín
von og ósk, að allir sem hafi áhuga á tónlist og hljóðvinnslu láti sig
málið varða og geri eitthvað afgerandi til að snúa hlutunum til betri
vegar. Með samstilltu átaki sem og almennri upplýsingu og umræðu um
efnið þá mun verða breyting á.


Reykjavík 21. desember 2012

Sigurdór Guðmundsson.


------------------------------------------------------------


1. Camerer, Florian. 2010. „On the way to Loudness nirvana – audio levelling with EBU R 128“. EBU TECHNICAL REVIEW, 2010 vol. 3. http://tech.ebu.ch/docs/techreview/trev_2010-Q3_loudness_Camerer.pdf. Skoðað 12. desember 2012.


2. Vickers, Earl. 2010. The Loudness War: Background, Speculation and Recommendations (paper
8175 presented at the AES 129th Convention, San Francisco, CA, USA ,
2010 November 4 – 7). 1.
http://www.sfxmachine.com/docs/loudnesswar/loudness_war.pdf. Skoðað 12.
desember 2012.


3. Vickers, Earl. 2011. „The Loudness War - Do Louder, Hypercompressed Recordings Sell Better?“ Journal of the Audio Engineering Socity 59: 346-351


4. Katz, Bob. 2007. Mastering Audio (önnur útgáfa). Focal Press. Bretland.


5. Milner, Greg. 2009. Perfecting Sound Forever: An Aural History of Recorded Music. Faber and Faber, Inc. Bandaríkin.


6. Wikipedia. The free encyclopedia. Síðast uppfærð 10. desember 2012. „Wall of Sound“. http://en.wikipedia.org/wiki/Wall_of_Sound. Skoðað 12. desember 2012.


7. Dennis, Robert. „Our Motown Heritage Loud and Clear (Part 1)“. EQ Weekly. http://www.eqweekly.com/page13405620.aspx. Skoðað 12. desember 2012.


8. Vickers, Earl. 2010. The Loudness War: Background, Speculation and Recommendations (paper 8175 presented at the AES 129th Convention, San Francisco, CA, USA , 2010 November 4 – 7). 2-3.


9. European Broadcasting Union. „Loudness“. http://tech.ebu.ch/loudness. Skoðað 12. desember 2012.


10. Allen, Ioan. 1997. „Are Movies too loud? - the classic paper on movie sound levels“. Cinema Technology June 2000. http://www.cinematechnologymagazine.com/pdf/movie%20loudness_Cinema%20June%2000.pdf. Skoðað 13. desember 2012.


11. Wikipedia. The free encyclopedia. Síðast uppfærð 11. desember 2012. „Compact Disc“. http://en.wikipedia.org/wiki/Compact_Disc. Skoðað 13. desember 2012.


12. Katz, Bob. 2007. Mastering Audio (önnur útgáfa). Focal Press. Bretland. 168.


13. Wikipedia. The free encyclopedia. Síðast uppfærð 20. nóvember 2012. „VU meter“. http://en.wikipedia.org/wiki/VU_meter. Skoðað 13. desember 2012.


14. Katz, Bob. 2007. Mastering Audio (önnur útgáfa). Focal Press. Bretland. 168.


15. Speer, Bob. 2001. „What Happened to Dynamic Range?“, CD Mastering Services. http://www.cdmasteringservices.com/dynamicrange.htm. Skoðað 13. desember 2012.


16. Shepherd, Ian. 2008. „Metallica "Death Magnetic" - Stop The Loudness Wars“, Mastering Media Blog. http://mastering-media.blogspot.com/2008/09/metallica-death-magnetic-stop-loudness.html. Skoðað 13. desember 2012.


17. Van Buskirk, Eliot. 2008. „Analysis: Metallica’s Death Magnetic Sounds Better in Guitar Hero“, Wired. http://www.wired.com/listening_post/2008/09/does-metallicas/. Skoðað 13. desember 2012.


18. Shepherd, Ian. 2011. „Multiband compression – the mastering engineer’s secret weapon ?“. Production Advice. http://productionadvice.co.uk/multiband-compression-for-mastering/. Skoðað 14. desember 2012.


19. Katz, Bob. 2007. Mastering Audio (önnur útgáfa). Focal Press. Bretland. 128.


20. Vickers, Earl. 2010. The Loudness War: Background, Speculation and Recommendations (paper 8175 presented at the AES 129th Convention, San Francisco, CA, USA , 2010 November 4 – 7). 5.


21. Levitin, Daniel J. 2006. This is Your Brain on Music: The Science of a Human Obsession - The Science of a Human Obsession. Dutton. New York, U.S.A. 69.


22.
Wikipedia, the free encyclopedia. Síðast uppfærð 29. nóvember 2012.
„Loudness war/Criticism“.
http://en.wikipedia.org/wiki/Loudness_war#Criticis


23. Levine, Robert. “The Death of High Fidelity: In the age of MP3s, sound quality is worse than ever”. Rolling Stone. http://web.archive.org/web/20080620071856/http://www.rollingstone.com/news/story/17777619/the_death_of_high_fidelity/2. Skoðað 15. desember 2012.


24. Neal, Chris. “Into the Red”. Music & Musicians. http://www.mmusicmag.com/01/Into-The-Night-M-JanFeb-2010.pdf. Skoðað 15. desember 2012.


25.
Lawson, Jesse. „The Compression and Expansion of Musical Experience in
the Digital Age“
https://library.uvm.edu/jspui/bitstream/123456789/164/1/Jesse%20Lawson%20MA%20thesis.pdf.
Skoðað 15. desember 2012.


26. Vickers, Earl. 2010. „The Loudness War: Background, Speculation and Recommendations“ (paper
8175 presented at the AES 129th Convention, San Francisco, CA, USA ,
2010 November 4 – 7). 10.
http://www.sfxmachine.com/docs/loudnesswar/loudness_war.pdf. Skoðað 16.
desember 2012.


27. Southall, Nick. Síðast uppfærð 1. maí 2006. „Imperfect Sound Forever“. Stylus Magazine. http://www.stylusmagazine.com/articles/weekly_article/imperfect-sound-forever.htm. Skoðuð 16. desember 2012.


28.
Jones, Sarah. Síðast uppfærð 1. desember 2005. „The Big Squeeze –
Mastering Engineers Debate Music’s Loudness Wars“.
Www.mixonline.com/mag/audio_big_squeeze/. Skoðað 16. desember 2012.


29. Neal, Chris. “Into the Red”. Music & Musicians. http://www.mmusicmag.com/01/Into-The-Night-M-JanFeb-2010.pdf. Skoðað 17. desember 2012.


30.
Johnston, James D. „Listener Fatigue – Some speculations“
www.aes.org/sections/pnw/ppt/jj/fatigue.ppt. Skoðað 17. desember 2012.


31. Vickers, Earl. 2010. „The Loudness War: Background, Speculation and Recommendations“ (paper
8175 presented at the AES 129th Convention, San Francisco, CA, USA ,
2010 November 4 – 7). 13.
http://www.sfxmachine.com/docs/loudnesswar/loudness_war.pdf. Skoðað 18.
desember 2012.


32. Shargorodsky, Josef. Curhan, Sharon. Curhan, Gary. Eavey, Roland. „Change in Prevalence of Hearing Loss in US Adolescents“. Journal of the American Medical Association. http://jama.jamanetwork.com/article.aspx?articleid=186427. Skoðað 18. desember 2012.


33.
Johnson, Chris. „Evergreen Albums - Top 10 Commercially Important
Albums“.
http://web.archive.org/web/20061029102553/http://www.airwindows.com/analysis/Evergreens.html.
Skoðað 18. desember 2012.


34. Johnson, Chris.
„Evergreen albums – analysis – Dynamics“.
http://web.archive.org/web/20060912072113/http://www.airwindows.com/analysis/Dynamics.html.
Skoðað 18. desember 2012.


35. Viney, Dave. „The
Obsession With Compression“.
http://www.pleasurizemusic.com/sites/default/files/The%20Obession%20With%20Compression%20-%20dissertation.pdf.
Skoðað 18. desember 2012.


36. Speer, Bob. „What
Happened To Dynamic Range?“.
http://www.cdmasteringservices.com/dynamicrange.htm. Skoðað 18. desember
2012.


37. Wikipedia, the free encyclopedia. Síðast
uppfærð 25. nóvember 2012. „2003 Grammy Awards - Production and
engineering“.
http://en.wikipedia.org/wiki/2003_Grammy_Awards#Production_and_engineering.
Skoðað 18. desember 2012.


38. Foti, Frank. Orban,
Robert. 2001. „What Happens to My Recording When It’s Played on the
Radio?“. http://omniaaudio.com/tech/mastering.pdf. Skoðað 18. desember
2012.


39. Wolters, Martin. Mundt, Harald. Riedmiller,
Jeffrey. 2010. „Loudness Normalization In The Age Of Portable Media
Players AES128“.
http://www.dolby.com/uploadedFiles/Assets/US/Doc/Professional/AES128-Loudness-Normalization-Portable-Media-Players.pdf.
Skoðað 19. desember 2012.


40. Nilsson, Martin. Síðast
uppfærð 27. nóvember 2012. „ID3 tag version 2.3.0“.
http://id3.org/id3v2.3.0. Skoðað 19. desember 2012.


41.
Music Loudness Alliance. „The Music Loudness Alliance is a group of
audio technical and production experts led by Florian Camerer and
consists of Florian and audio engineers Eelco Grimm, Kevin Gross, Bob
Katz, Bob Ludwig and Thomas Lund.“http://music-loudness.com/. Skoðað 19.
desember 2012.


42. Camerer, Florian. Grimm, Eelco.
Gross, Kevin. Katz, Bob. Ludwig, Bob, Lund, Thomas. Júlí 2012. „Loudness
Normalization: The Future of File - Based Playback“.
http://music-loudness.com/PDFs/Loudness_Alliance_White_Paper_final_v1.pdf.
Skoðað 19. desember 2012.


43. Shepherd, Ian. „The
Dynamic Range Day Award For the best-sounding dynamic mix of 2011/12“.
http://dynamicrangeday.co.uk/award/. Skoðað 19. desember 2012.


44. European Broadcasting Union. „Loudness“. http://tech.ebu.ch/loudness. Skoðað 19. desember 2012.


45. Turn Me Up! - Bringing Dynamics Back To Music. „Who We Are“. http://turnmeup.org/about_us.shtml. Skoðað 20. desember 2012.


46. Shepherd, Ian. Síðast uppfærð 21. september 2012. „Even Green Day sound better with more dynamics“. Production Advice. http://productionadvice.co.uk/green-day-more-dynamics/. Skoðuð 19. desember 2012.


---


Heimildalisti:


Allen,
Ioan. 1997. „Are Movies too loud? - the classic paper on movie sound
levels“. Cinema Technology June 2000.
http://www.cinematechnologymagazine.com/pdf/movie%20loudness_Cinema%20June%2000.pdf.
Skoðað 13. desember 2012.


Camerer, Florian .2010. „On
the way to Loudness nirvana – audio levelling with EBU R 128“. EBU
TECHNICAL REVIEW, 2010 vol. 3., bls. 1.


Camerer,
Florian. Grimm, Eelco. Gross, Kevin. Katz, Bob. Ludwig, Bob, Lund,
Thomas. Júlí 2012. „Loudness Normalization: The Future of File - Based
Playback“.
http://music-loudness.com/PDFs/Loudness_Alliance_White_Paper_final_v1.pdf.
Skoðað 19. desember 2012.


Dennis, Robert. „Our Motown
Heritage Loud and Clear (Part 1)“. EQ Weekly.
http://www.eqweekly.com/page13405620.aspx. Skoðað 12. desember 2012.


European Broadcasting Union. „Loudness“. http://tech.ebu.ch/loudness. Skoðað 19. desember 2012.


Foti,
Frank. Orban, Robert. 2001. „What Happens to My Recording When It’s
Played on the Radio?“. http://omniaaudio.com/tech/mastering.pdf. Skoðað
18. desember 2012.


Johnson, Chris. „Evergreen albums –
analysis – Dynamics“.
http://web.archive.org/web/20060912072113/http://www.airwindows.com/analysis/Dynamics.html.
Skoðað 18. desember 2012.


Johnson, Chris. „Evergreen
Albums - Top 10 Commercially Important Albums“.
http://web.archive.org/web/20061029102553/http://www.airwindows.com/analysis/Evergreens.html.
Skoðað 18. desember 2012.


Johnston, James D. „Listener
Fatigue – Some speculations“ 
www.aes.org/sections/pnw/ppt/jj/fatigue.ppt. Skoðað 17. desember 2012.


Jones,
Sarah. Síðast uppfærð 1. desember 2005. „The Big Squeeze – Mastering
Engineers Debate Music’s Loudness Wars“.
www.mixonline.com/mag/audio_big_squeeze/. Skoðað 16. desember 2012.


Katz, Bob. 2007. Mastering Audio (önnur útgáfa). Focal Press. Bretland.


Lawson,
Jesse. „The Compression and Expansion of Musical Experience in the
Digital Age“
https://library.uvm.edu/jspui/bitstream/123456789/164/1/Jesse%20Lawson%20MA%20thesis.pdf.
Skoðað 15. desember 2012.


Levitin, Daniel J. 2006.
This is Your Brain on Music: The Science of a Human Obsession - The
Science of a Human Obsession. Dutton. New York, U.S.A. 69.


Levine,
Robert. “The Death of High Fidelity: In the age of MP3s, sound quality
is worse than ever”. Rolling Stone.
http://web.archive.org/web/20080620071856/http://www.rollingstone.com/news/story/17777619/the_death_of_high_fidelity/2.
Skoðað 19. desember 2012.


Milner, Greg. 2009. Perfecting Sound Forever: An Aural History of Recorded Music. Faber and Faber, Inc. Bandaríkin.


Music
Loudness Alliance. „The Music Loudness Alliance is a group of audio
technical and production experts led by Florian Camerer and consists of
Florian and audio engineers Eelco Grimm, Kevin Gross, Bob Katz, Bob
Ludwig and Thomas Lund.“http://music-loudness.com/. Skoðað 19. desember
2012.


Neal, Chris. “Into the Red”. Music &
Musicians. http://www.mmusicmag.com/01/Into-The-Night-M-JanFeb-2010.pdf.
Skoðað 17. desember 2012.


Nilsson, Martin. Síðast
uppfærð 27. nóvember 2012. „ID3 tag version 2.3.0“.
http://id3.org/id3v2.3.0. Skoðað 19. desember 2012Speer, Bob. 2001.
„What Happened to Dynamic Range?“, CD Mastering Services.
http://www.cdmasteringservices.com/dynamicrange.htm. Skoðað 13. desember
2012.


Shargorodsky, Josef. Curhan, Sharon. Curhan,
Gary. Eavey, Roland. „Change in Prevalence of Hearing Loss in US
Adolescents“. Journal of the American Medical Association.
http://jama.jamanetwork.com/article.aspx?articleid=186427. Skoðað 18.
desember 2012.


Shepherd, Ian. 2008. „Metallica "Death
Magnetic" - Stop The Loudness Wars“, Mastering Media Blog.
http://mastering-media.blogspot.com/2008/09/metallica-death-magnetic-stop-loudness.html.
Skoðað 13. desember 2012.


Shepherd, Ian. 2011.
„Multiband compression – the mastering engineer’s secret weapon ?“.
Production Advice.
http://productionadvice.co.uk/multiband-compression-for-mastering/.
Skoðað 14. desember 2012.

Shepherd, Ian. „The Dynamic Range Day
Award For the best-sounding dynamic mix of 2011/12“.
http://dynamicrangeday.co.uk/award/. Skoðað 19. desember 2012.


Shepherd,
Ian. Síðast uppfærð 21. september 2012. „Even Green Day sound better
with more dynamics“.  Production Advice.
http://productionadvice.co.uk/green-day-more-dynamics/. Skoðuð 19.
desember 2012.


Southall, Nick. Síðast uppfærð 1. maí
2006. „Imperfect Sound Forever“. Stylus Magazine.
http://www.stylusmagazine.com/articles/weekly_article/imperfect-sound-forever.htm.
Skoðuð 16. desember 2012.

Speer, Bob. „What Happened To Dynamic Range?“. http://www.cdmasteringservices.com/dynamicrange.htm. Skoðað 18. desember 2012.


Turn Me Up! - Bringing Dynamics Back To Music. „Who We Are“. http://turnmeup.org/about_us.shtml. Skoðað 20. desember 2012.


Van Buskirk, Eliot. 2008. „Analysis: Metallica’s Death Magnetic Sounds Better in Guitar Hero“,


Vickers,
Earl. 2010. The Loudness War: Background, Speculation and
Recommendations (paper 8175 presented at the AES 129th Convention, San
Francisco, CA, USA , 2010 November 4 – 7).
http://www.sfxmachine.com/docs/loudnesswar/loudness_war.pdf. Skoðað 12.
desember 2012.


Vickers, Earl. 2011. „The Loudness War -
Do Louder, Hypercompressed Recordings Sell Better?“ Journal of the
Audio Engineering Socity 59: 346-351


Viney, Dave. „The
Obsession With Compression“.
http://www.pleasurizemusic.com/sites/default/files/The%20Obession%20With%20Compression%20-%20dissertation.pdf.
Skoðað 18. desember 2012.


Wikipedia. The free
encyclopedia. Síðast uppfærð 11. desember 2012. „Compact Disc“.
http://en.wikipedia.org/wiki/Compact_Disc. Skoðað 13. desember 2012.


Wikipedia.
The free encyclopedia. Síðast uppfærð 20. nóvember 2012. „VU meter“.
http://en.wikipedia.org/wiki/VU_meter. Skoðað 13. desember 2012.


Wikipedia.
The free encyclopedia. Síðast uppfærð 10. desember 2012. „Wall of
Sound“. http://en.wikipedia.org/wiki/Wall_of_Sound. Skoðað 12. desember
2012.


Wikipedia, the free encyclopedia. Síðast uppfærð
25. nóvember 2012. „2003 Grammy Awards - Production and engineering“. 
http://en.wikipedia.org/wiki/2003_Grammy_Awards#Production_and_engineering.
Skoðað 18. desember 2012.


Wikipedia, the free
encyclopedia. Síðast uppfærð 29. nóvember 2012. „Loudness
war/Criticism“. http://en.wikipedia.org/wiki/Loudness_war#Criticis


Wired. http://www.wired.com/listening_post/2008/09/does-metallicas/. Skoðað 13. desember 2012.


Wolters,
Martin. Mundt, Harald. Riedmiller, Jeffrey. 2010. „Loudness
Normalization In The Age Of Portable Media Players AES128“.
http://www.dolby.com/uploadedFiles/Assets/US/Doc/Professional/AES128-Loudness-Normalization-Portable-Media-Players.pdf.
Skoðað 19. desember 2012.


    Comment on this article